Ég kláraði fyrri helminginn á dögunum og bóndinn tók uppá því að gefa mér rafmagnsreiðhjól. Og satt best að segja – alveg hrikalega gott og fínt af þeirri gerðinni.
 
Auðvitað vissi ég alveg af þessum hjólum og hafði prófað þau, en samt... ég var ekki viss hvort mér þætti það við hæfi, hvort ég hefði einhverja ástæðu til að tileinka mér svona fínheit. 
 
Margsinnis hef ég dásamað aðstæður til hjólreiða í borginni og tel hana frábærlega vel til þess fallna að vera hjóluð. Þetta sagði ég þrátt fyrir mislynd veður og hálsa og hæðir innan borgarmarkanna. 
Nú er það bara svo að ég finn ekki lengur þessi mislyndu veður og það er eins og hæðir bæjarins hafi verið teknar burt – allar sem ein, nema þessar sem halla niður í móti!! Hver hefði getað trúað þessu? Maður er bara úti að hjóla og það er enginn mótvindur og allt slétt í landslaginu!
Eina sem er, ég má klæða mig aðeins betur. Hef jafnvel hjólað í dúnúlpunni minni – sem ég gerði aldrei á órafknúnu hjólunum mínum. Þá bjó ég til allann minn hita sjálf og þurfti ekki dúninn með. 
 
Í mínum huga er rafmagnshjólið týndi hlekkurinn á milli einkabílsins og reiðhjólsins. Fyrir hvern þann sem hefur áhuga á að fara út úr viðjum einkabílsins, langar að hætta í umferðaröngþveitinu en nennir ekki svitanum og smá átökum og vill njóta þess hvað borgin er stórkostleg hjólaborg, þá er rafmagnshjól svarið. Þú þarft að hjóla til að koma því áfram og ef það verður rafmagnslaust – þá hjólarðu bara áfram í aðeins meiri rólegheitum. 
 
Þetta veit á góðan seinni helming. 
 
Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi
 
Áður birt í Reykjavík - Vikublað á vordögum 2015
 

Ævinlega meðvindur og sléttlendi en ávallt á rólegri hreyfingu; Einar Arnarson er líka alsæll með sitt hjól – mynd hjolreidar.is 

 

 
|