Hjólafærni er í samvinnu við Rauða krossinn við að gera upp gömul reiðhjól með hælisleitendum. Sorpa og Reykjavíkurborg hafa stutt verkefnið auk annarra og rétt um 100 reiðhjól gengu í endurnýjun lífdaga árið 2017.

Á haustdögum 2016 settust fulltrúar Hjólafærni og Rauðakrossins saman að borðinu og lögðu upp með samstarfsverkefnið HæHó! – með það að markmiði að hvetja hælisleitendur til virkni/aðlögunar/sjálfbærni/sjálfstæðis/lýðheilsu/fyrirmyndar/frelsis með reiðhjólum.

Verkefnið varð tvíþætt:

1. Hjólað með á laugardögum - Bjóða 10 manna hóp úr röðum hælisleitenda að hjóla um höfuðborgarsvæðið vikulega undir leiðsögn Hjólafærni með upphaf og reiðhjól frá Tjaldsvæðinu í Laugardal. Í samvinnu við Farfugla á Íslandi var okkur boðinn þar aðgangur að reiðhjólum og boðið uppá kaffi að loknum hjólaferðum. Alls urðu þetta um 8 hjólaferðir og dró heldur úr þátttöku hælisleitenda eftir því sem leið á haustið. Um miðjan október skiptum við yfir á nagladekk fyrir öll hjólin. Hjólabúðin TRI gaf mikinn afslátt af bæði dekkjum og ljósum á hjólin.

2. Verkstæði fyrir hælisleitendur - Setja upp verkstæði þar sem hægt er að gera upp gömul reiðhjól og koma í gott stand. Hugmyndin er að vinna að því að hver hælisleitandi/kvótaflóttamaður fái fyrir sjálfan sig eigið reiðhjól. Til þess að verkstæðið geti þrifist, þurfum við að hafa ábyrgan verkstæðisformann sem leiðir starfið amk vikulega og heldur auk þess utan um alla ábyrgð á öðrum þáttum verkefnisins. 

Þessi hluti verkefnisins varð samstarfsverkefni Hjólafærni, Rauða krossins, Sorpu, Reykjavíkurborgar, Íslenska fjallahjólaklúbbsins, hjólasöfnun Barnaheilla og nú síðast var verkstæðið fært inn í húsnæði að Dalshrauni 10, sem kallast Músík og motor.

Við byrjuðum á að safna hjólum í Ánanaustum og kynntum söfnunina á Facebook með hvatningu til almennings að koma með gömul hjól þangað. Sorpa tók á móti þeim og við fórum reglulega og sóttum þangað hjól eftir hendinni – enda fyrsta verkstæðið okkur að Brekkustíg 2, í húsnæði Íslenska fjallahjólaklúbbsins. Þar var unnið 2 í viku, á mánudögum og miðvikudögum í mars og apríl.

Í apríl þróaðist þetta verkefni í samstarf við Hjólasöfnun Barnaheilla því að áhugi hælisleitenda var mikill á HæHó! og þeir vildu bæði fá að koma oftar, láta gott af sér leiða og við þurftum stærra húsnæði en það sem Íslenski fjallahjólaklúbburinn gat boðið okkur uppá.

Þannig að við fluttum okkur að Helluhrauni 8 þar sem Hjólasöfnun Barnaheilla var til húsa. Þangað gátu hælisleitendur komið mán., þri. og mið. frá kl. 10 – 16, gert upp hjól og aðstoðað við lagfæringar á þeim hjólum sem Barnaheill gaf síðan börnum á Íslandi.

Þegar kom að því að Barnaheillaverkefninu lauk, varð HæHó! heimilislaust en mikill áhugi var enn á meðal hælisleitenda að eiga þess kost að gera upp sín eigin reiðhjól. Svo starfsmaður Rauða krossins fann nýtt húsnæði og við hófum samstarf við Músík og mótor að Dalshrauni 10. Þar störfum við á mánudögum frá kl. 12 – 16. Tveir sjálfboðaliðar koma úr röðum Rauða krossins við hverja opnun og frá Hjólafærni, kemur einn launaður starfsmaður í 2 ½ tíma, til að vinna í viðgerðum og stýra faglegri ráðgjöf vegna viðgerðanna. Auk þess hafa nokkrir hælisleitenda sýnt mikla færni í viðgerðum og unnið þétt með okkur í verkefninu, þannig að þeir hafa nánast orðið eins konar verkstæðaformenn og lagt öðrum lið í viðgerðum.

Við árslok eru yfir 100 skráð reiðhjól gengin í endurnýjun lífdaga, nýuppgerð og komin í notkun á meðal hælisleitenda á Íslandi. Við höfum ekki tölu yfir það, hversu mörg reiðhjól nutu starfsframlags hælisleitenda í hjólaverkefni Barnaheilla – en þau voru all nokkur á 10 daga tímabili.

HæHó! hefur fengið tvo styrki frá Reykjavíkurborg. Annar var frá Hverfasjóði borgarinnar og hinn var frá Mannréttindaskrifstofu borgarinnar. Útgjöld verkefnisins eru fyrst og fremst laun starfsmanna Hjólafærni, varahlutakaup, auglýsingar og kaffi.

Frá Rauða krossinum koma að starfinu verkefnastjórar félagsstarfs hælisleitenda og sjálfboðaliðar sem eru til stuðnings við allar verkstæðisopnanir. Rauði krossinn hefur einnig lagt fjármuni í verkfærakaup og kaffi. Eins er bíll á vegum RK fenginn til að flytja hjól frá Sorpu í Dalhraun.

|